Maurafjall Attenborough á Rúv

Við vekjum athygli ykkar á frábærum heimildaþætti um maura í Júrafjöllunum á Rúv. Þátturinn er aðgengilegur til 6. apríl 2025.

https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/david-attenborough-maurafjallid/35226/afu3t1 Forsíða þáttar um maura á Rúv

Meira um þessa skógarmaura í grein á vef náttúrufræðisafnsins í Bern.

Christian BERNASCONI, Arnaud MAEDER, Anne FREITAG & Daniel CHERIX.  Formica paralugubris (Hymenoptera: Formicidae) in the Italian Alps
from new data and old data revisited. Myrmecologische Nachrichten 8 251 – 256 Wien, September 2006

Maurarnir verða á vísindavöku 2024, 28. september

Við komum með maurana á vísindavökuna 2024, sem verður í laugardalshöllinni 28. september n.k.

Hvísl í veröld maura: könnum dulið líf og raddir maura

Ævintýri mauranna: þeirra dulda líf og samtal

Stigið inn í dularfulla veröld mauranna, þessara litlu dýra með merkilegu samfélög og athyglisverðu leyndarmál. Maurar gegna ólíkum hlutverkum í búinu, og vinna saman við fæðuöflun og uppeldi ungviðis. Hvað segja þeir hver við annan, og hvernig? Þeir nota efnaboð til samskipta, t.d. skilja eftir sameindir til að mynda slóð að fæðuuppsprettu. Maurar mynda einnig hljóð, sem hægt verður að hlýða á. Kíkið á maurabásinn og lærið meira um líffræði og fjölbreytileika maura, þar á meðal nýjar tegundir sem borist hafa til landsins. Skoða má maurabú, og hægt verður að hlusta á hljóðin sem maurar gefa frá sér. Uppgötvaðu leyndarmál mauranna, og sjáðu þá í nýju ljósi og heyrðu þeirra nýju hljóð.

Matti og Maurún – Hulinn heimur íslenskra maura

Sýning og útgáfa myndlýstrar barnabókar um íslenska maura, Matti og Maurún – Hulinn heimur íslenskra maura. 

Á sýningunni skoðum við furðuverk mauraríkisins, rýnum í myndheiminn sem Laufey Jónsdóttir skapaði fyrir bókina og sjáum íslenska maura stíga á stokk í iðandi maurabúi.

Rithöfundurinn og líffræðingurinn Marco Mancini hefur rannsakað maura á Íslandi frá árinu 2019 og deilt undrum mauraheimsins í fjölmiðlum, á vefsíðunni „Maurar á Íslandi” og nú í þessari fallega myndskreyttu bók.

Þetta er önnur barnabók myndhöfundarins og grafíska hönnuðarins Laufeyjar Jónsdóttur. Fyrri bók hennar, „Milli svefns og Vöku”, hlaut tilnefningu til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar fyrir myndskreytingar og viðurkenningu frá Félagi íslenskra teiknara í flokknum myndlýsingasería.

Matti og Maurún – Hulinn heimur íslenskra maura

„Leggðu af stað í hugljúft ævintýri með Maurúnu og Matta til að komast í kynni við ótrúlegan heim leynilegrar mauranýlendu á íslenskum leikskólavelli. Taktu þátt í sérstakri vináttu þeirra sem er fyllt gleði, forvitni og sögum sem leiða í ljós mikil stórmerki undir fótum okkar.“

Saga og enskur texti: Marco Mancini

Teikningar og hönnun: Laufey Jónsdóttir

Íslensk þýðing: Andreas Guðmundsson Gähwiller

Sérfræðingur í kennslufræði: Caterina Poggi

Útgefandi: Bókafélagið

Styrktaraðilar: Þróunarsjóður námsgagna og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn

Opnunartímar sýningarinnar á HönnunarMars:

  • Mið: 18:00 – 20:00
  • Fim – Lau: 10:00 – 18:00
  • Sun: 11:00 – 18:00

Sýningin stendur frá 24. apríl til 8. maí.

https://www.honnunarmidstod.is/honnunarmars/dagskra/2024/matti-og-maurun-hulinn-heimur-islenskra-maura-59

Maurar í Perlunni

Viðburður: Maurar á Íslandi

Dagsetning: Sunnudagur 5. maí

Staðsetning: Perlan, 2. hæð

Tími: kl. 14 – 16

Það kemur mörgum á óvart að maurar finnist í Reykjavík og víðar á Íslandi. Á þessum spennandi viðburði gefst fólki tækifæri til að kynnast þessum forvitnilegu dýrum, stöðu þeirra í vistkerfinu og hvað það þýðir fyrir lífríki Íslands að nú finnist þeir hér. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Háskóla Íslands og Marco Mancini líffræðing, en hann hefur stundað rannsóknir á maurum á Íslandi undanfarin ár.

Á Spennandi sunnudögum bjóðum við upp fjölskylduviðburði á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni.

Kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur til að skemmta sér og tengjast náttúrunni á óvenjulegan og skemmtilegan hátt.

Aðgangur er ókeypis. Hlökkum til að sjá ykkur!

Náttúruminjasafn Íslands er með fjölbreytta fjölskylduviðburði fyrsta sunnudag hvers mánaðar víða á höfuðborgarsvæðinu.

Styrkur fyrir samfélagsvirkni fyrir árið 2020

Samfélagssjóður HÍ styrkti mauraverkefnið árið 2020, helmingur fór í skrif um maura fyrir vísindavefinn og hinn helmingur í pistla um veirur og þróun þeirra.

Markmið verkefnis var að vinna frekar efni um erfðir og þróun lífvera fyrir vísindavefinn, með áherslu á veiruna sem veldur covid-19 og önnur dæmi um erfðir í bakteríum, plöntum og dýrum, og þróun lífvera og kraftana sem móta fjölbreytileika, þol og eiginleika lífvera og veira.

Rauðir eldmaurar

Í fyrra birtum við greinarkorn um eldmaura á vísindavefnum.

Marco Mancini og Arnar Pálsson. „Hvað eru rauðir eldmaurar?Vísindavefurinn, 22. mars 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=84777.

„Eldmaurar eru meðal alræmdustu skordýra heims enda stinga þeir bráð sína og geta drepið hana. Ef búi þeirra er raskað hópast eldmaurarnir að innrásaraðilanum og geta valdið honum miklum ama og sársauka, jafnvel þó þar sé um að ræða stór spendýr á borð við menn. Ásamt hermaurum eru eldmaurar þeir maurar sem fólk óttast hvað mest, samanber ýmsar bókmenntir og kvikmyndir á borð við Legion of Fire: Killer Ants! og Fire Ants: The Invincible Army.[1]

Nokkrar tegundir maura ganga undir nafninu eldmaurar, meðal annars svartir eða rauðir eldmaurar. Einnig má nefna hina svokölluðu evrópsku eldmaura (Myrmica rubra) sem hafa fundist hérlendis eins og fjallað er um í svari sömu höfunda við spurningunni Hafa evrópskir eldmaurar fundist á Íslandi? Hér verður hins vegar fjallað sérstaklega um rauða eldmaurinn (Solenopsis invicta) sem er mjög skæður, meðal annars vegna þess að tegundin hefur dreifst frá upprunalegum heimkynnum sínum til annarra landa þar sem hann telst vera ágeng tegund.“

Evrópskir eldmaurar á vísindavefnum

Við skrifuðum í fyrra færslu um evrópska eldmaura fyrir vísindavefinn.

Marco Mancini og Arnar Pálsson. „Hafa evrópskir eldmaurar fundist á Íslandi?Vísindavefurinn, 15. mars 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=12687

„Úti í heimi finnast nokkrar tegundir svokallaðra eldmaura. Í Evrópu finnst tegundin Myrmica rubra og er hún stundum nefnd evrópskir eldmaurar (e. European fireants eða Common red ants). Útbreiðsla tegundarinnar er aðallega á norðlægum svæðum í Evrópu og austur eftir Asíu[1] en hún hefur dreifst víðar um jörðina með mönnum. Fyrir rúmri öld barst hún til austurstrandar Norður-Ameríku og dreifðist þaðan um meginlandið.[2] Myrmica rubra er ágeng tegund og vegna árásargirni og hversu fjölbreytta fæðu einstaklingar hennar geta nýtt er hún talin ógnun við líffræðilegan breytileika þar sem hún hefur numið land.[3][4] Evrópskir eldmaurar hafa leitt til fækkunar annarra skordýra í Bandaríkjunum[5], og vitað er að þeir hafa aukið dánartíðni mávaunga í hreiðrum.[6] Maurar af tegundinni Myrmica rubra eru með brodd sem gerir þeim kleift að særa dýr, þar á meðal menn.“