Maurar í Perlunni

Viðburður: Maurar á Íslandi

Dagsetning: Sunnudagur 5. maí

Staðsetning: Perlan, 2. hæð

Tími: kl. 14 – 16

Það kemur mörgum á óvart að maurar finnist í Reykjavík og víðar á Íslandi. Á þessum spennandi viðburði gefst fólki tækifæri til að kynnast þessum forvitnilegu dýrum, stöðu þeirra í vistkerfinu og hvað það þýðir fyrir lífríki Íslands að nú finnist þeir hér. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Háskóla Íslands og Marco Mancini líffræðing, en hann hefur stundað rannsóknir á maurum á Íslandi undanfarin ár.

Á Spennandi sunnudögum bjóðum við upp fjölskylduviðburði á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni.

Kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur til að skemmta sér og tengjast náttúrunni á óvenjulegan og skemmtilegan hátt.

Aðgangur er ókeypis. Hlökkum til að sjá ykkur!

Náttúruminjasafn Íslands er með fjölbreytta fjölskylduviðburði fyrsta sunnudag hvers mánaðar víða á höfuðborgarsvæðinu.

Styrkur fyrir samfélagsvirkni fyrir árið 2020

Samfélagssjóður HÍ styrkti mauraverkefnið árið 2020, helmingur fór í skrif um maura fyrir vísindavefinn og hinn helmingur í pistla um veirur og þróun þeirra.

Markmið verkefnis var að vinna frekar efni um erfðir og þróun lífvera fyrir vísindavefinn, með áherslu á veiruna sem veldur covid-19 og önnur dæmi um erfðir í bakteríum, plöntum og dýrum, og þróun lífvera og kraftana sem móta fjölbreytileika, þol og eiginleika lífvera og veira.

Rauðir eldmaurar

Í fyrra birtum við greinarkorn um eldmaura á vísindavefnum.

Marco Mancini og Arnar Pálsson. „Hvað eru rauðir eldmaurar?Vísindavefurinn, 22. mars 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=84777.

“Eldmaurar eru meðal alræmdustu skordýra heims enda stinga þeir bráð sína og geta drepið hana. Ef búi þeirra er raskað hópast eldmaurarnir að innrásaraðilanum og geta valdið honum miklum ama og sársauka, jafnvel þó þar sé um að ræða stór spendýr á borð við menn. Ásamt hermaurum eru eldmaurar þeir maurar sem fólk óttast hvað mest, samanber ýmsar bókmenntir og kvikmyndir á borð við Legion of Fire: Killer Ants! og Fire Ants: The Invincible Army.[1]

Nokkrar tegundir maura ganga undir nafninu eldmaurar, meðal annars svartir eða rauðir eldmaurar. Einnig má nefna hina svokölluðu evrópsku eldmaura (Myrmica rubra) sem hafa fundist hérlendis eins og fjallað er um í svari sömu höfunda við spurningunni Hafa evrópskir eldmaurar fundist á Íslandi? Hér verður hins vegar fjallað sérstaklega um rauða eldmaurinn (Solenopsis invicta) sem er mjög skæður, meðal annars vegna þess að tegundin hefur dreifst frá upprunalegum heimkynnum sínum til annarra landa þar sem hann telst vera ágeng tegund.”

Vísindavefspistlar

Í fyrra skrifuðum við nokkra pistla fyrir vísindavefinn um maura.

Sá fyrsti hét: „Hafa maurar numið land á Íslandi?

Þar segir m.a.

“Vegna legu Íslands í miðju Atlantshafinu og áhrifa ísaldarjökla hefur fána landsins nær öll borist hingað frá meginlandi eða öðrum eyjum. Eftir að landið byggðist jókst flutningur dýra og annarra lífvera hingað, sérstaklega á síðustu öld. Það á einnig við um framandi tegundir eins og maura.

Samkvæmt skrám Náttúrufræðisafns Íslands fannst fyrsta maurabúið á Íslandi árið 1938. Það var stakt bú blökkumaura (Lasius niger). Næsta maurabú fannst árið 1977 og tilheyrði húsamaurum (Hypoponera punctatissima). Frá því hafa bú uppgötvast árlega (1. mynd). Fjölgunin stafar líklega af auknum innflutningi plantna og annars varnings, en talið er að maurar geti borist milli landa á marga vegu: í ferðatöskum, á fatnaði, með póstsendingum, með sendingum plantna, timburs og matvæla og án efa á margan annan hátt. Einnig er viðbúið að maurar sem komnir voru til landsins hafi náð að fjölga sér.”

Vísindavefurinn, 7. júlí 2021. Sótt 2. júní 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=48555.

Vinnumaur ber púpu úr búi

Mikla umferð er oft að finna við innganga maurabúa á hlýjum sumardögum.

Vinnumaurar æða inn og út úr búinu, leitandi að mat sem þeir svo bera tilbaka í búið í kjálkum sínum.

Við lok myndbandsins má einnig sjá vinnumaur bera púpu út úr búinu. Margar Lasius tegundir hafa þann eiginleika að getaverið með fleiri en eitt bú þrátt fyrir að hafa aðeins staka drottningu. Líklegt er að þessi vinnumaur sé að bera púpuna frá einu búi í annað.