Mikilvægt að fyrirbyggja fjölgun eldmaura

Fjallað var um rannsókn okkar á eldmaurum í fréttum í sumar.  Þar sagði m.a.

Eldmaurar hafa numið land á Íslandi. Ekki er vitað til þess að þeir hafi dreift sér en þó hafa tvö bú fundist í garði í miðbæ Reykjavíkur. Verið er að rannsaka maurana og er lögð áhersla á að fólk láti vita, finni það bú, en eyði þeim ekki í kyrrþey. Greint var frá þessu í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins, tímariti Náttúruminjasafns Íslands og hins Íslenska Náttúrufræðifélags.

… Meindýraeyðir Íslands lét vita þegar hann fann eldmaurabú og ráðist var í að ná lifandi maurum  í stað þess að útrýma þeim öllum á staðnum – eins og  oftast er gert.

Andreas Guðmundsson B.Sc.-nemi í líffræði, segir mjög spennandi að fá lifandi bú. „Líka inn á tilraunastofu því þá getum við séð hverju þeir nærast á og hvernig þeir hegða sér. Þannig að það var svolítið mikilvægt fyrir okkur að geta fengið svona bú. Það var í rauninni ekkert svo flókið. Við tókum stóra poka og hlóðum mold upp úr búinu í þá og eyddum nokkrum dögum í að tína út maurana, sem að var mjög spennandi því að allir maurarnir geta jú bitið og stungið,“ segir Andreas.

Meira af vísindavef

Eins og fram kemur í svari sömu höfunda við spurningunni Hafa maurar numið land á Íslandi? hafa fundist tæplega 20 tegundir maura hér á landi. Vísbendingar eru um að fjórar þeirra hafi náð hér fótfestu: húsamaur, blökkumaur, faraómaur og draugamaur…

Marco Mancini, Andreas Guðmundsson og Arnar Pálsson. „Hvaða maurar hafa náð fótfestu á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 9. júlí 2021. Sótt 13. júní 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=47708.

Vísindavefspistlar

Í fyrra skrifuðum við nokkra pistla fyrir vísindavefinn um maura.

Sá fyrsti hét: „Hafa maurar numið land á Íslandi?

Þar segir m.a.

„Vegna legu Íslands í miðju Atlantshafinu og áhrifa ísaldarjökla hefur fána landsins nær öll borist hingað frá meginlandi eða öðrum eyjum. Eftir að landið byggðist jókst flutningur dýra og annarra lífvera hingað, sérstaklega á síðustu öld. Það á einnig við um framandi tegundir eins og maura.

Samkvæmt skrám Náttúrufræðisafns Íslands fannst fyrsta maurabúið á Íslandi árið 1938. Það var stakt bú blökkumaura (Lasius niger). Næsta maurabú fannst árið 1977 og tilheyrði húsamaurum (Hypoponera punctatissima). Frá því hafa bú uppgötvast árlega (1. mynd). Fjölgunin stafar líklega af auknum innflutningi plantna og annars varnings, en talið er að maurar geti borist milli landa á marga vegu: í ferðatöskum, á fatnaði, með póstsendingum, með sendingum plantna, timburs og matvæla og án efa á margan annan hátt. Einnig er viðbúið að maurar sem komnir voru til landsins hafi náð að fjölga sér.“

Vísindavefurinn, 7. júlí 2021. Sótt 2. júní 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=48555.

Maurar Íslands á facebook, twitter, youtube og instagram

Til að auka líkurnar á að fólk viti að maurar búa hérlendis og til að hvetja fólk til að hafa samband við okkur ef það finnur maura, þá settum við upp síður á samfélagsmiðlum.

Maurar Íslands á Facebook.

Maurar Íslands á Youtube.

Maurar Íslands á Instagram.

Maurar Íslands á twitter.

Maurar í vesturbæ Reykjavíkur

Maurar eru ekki algengir á Íslandi, en finnast hér þó samt. Nýlegt verkefni miðar að því að kortleggja dreifingu maura á höfuðborgarsvæðinu sumarið 2020. Að verkefninu vinna Marco Mancini meistaranemi og Andreas Guðmundsson grunnnemi í líffræði. Leiðbeinendur Marcos eru Arnar Pálsson og Mariana Tamayo.

Myndin er af maurum í vesturbæ Reykjavíkur af tegundinni Lasius niger í vesturbæ Reykjavíkur.

Mynd tók Marco Mancini 2020 (photo copyright Marco Mancini).